Þegar ég var yngri var ég algjör lestrarhestur. Eftir því sem ég varð eldri og byrjaði í menntaskóla og síðar háskóla fékk skemmtilesturinn að sitja á hakanum. Ég byrjaði nokkrum sinnum á einhverjum bókum en komst ekki mikið áfram - hélt ég hefði bara misst hæfileikann að lesa mér til yndis.
Seinasta sumar leigði ég mér Ísprinsessuna eftir Camillu Läckberg sem er fyrsta bókin í svokallaðri Fjallabakka-seríu. Aldrei á ævi minni hef ég verið jafn spennt og ég gat varla lagt bókina frá mér. Það sumar kláraði ég allar sjö bækurnar (einnig Morð og möndlulykt sem er tæplega 200 bls) og ég vildi ekki trúa því að ég væri búin með þær allar. Það var mjög góð tilbreyting að sitja heima og lesa en ekki hanga í tölvunni!
Ég var í Bónus um daginn þegar ég sá áttundu bókina eftir Camillu, Englasmiðinn. Þaut strax upp á bókasafn og fór á biðlista eftir henni. Bókin er tæpar 500 bls og þar sem hún er ný er hún á 14 daga útláni. Þegar ég fékk hana í hendurnar var ég ekki lengi að klára hana og nú er ég komin á sama stað - búin með allar Camillu-bækurnar sem ég get lesið.
Mæli svo hiklaust með þessum bókum en þær eru í réttri röð:
Ísprinsessan
Predikarinn
Steinsmiðurinn
Óheillakrákan
Ástandsbarnið
Hafmeyjan
Vitavörðurinn
Morð og möndlulykt (stutt saga)
Englasmiðurinn
Mæli svo hiklaust með þessum bókum - öfunda þá sem eiga þær eftir!
xxx
Lilja
No comments:
Post a Comment