Thursday, June 28, 2012

Morgunstund gefur gull í mund

Ég elska ekkert meira en að taka daginn snemma. Ein sem vinnur með mér spurði mig um daginn hvort mér þætti vont að sofa. Ég hló að því en það er nú kannski ekkert skrýtið að hún skuli hafa spurt.

Þar sem ég vinn vaktavinnu þá mæti ég ýmist í vinnuna kl 6:30 eða 14:30. Núna eru til dæmis tveir tímar í að ég eigi að mæta í vinnuna samt vaknaði ég kl 7, fór aðeins í ræktina, ákvað að slást í för með Höllu Karen hlaupahópsstjórnendanum mínum og fleirum upp Úlfarsfellið kl 8.10, naut þess í botn, skellti mér í sund, kom heim og borðaði brunch úti á bikiníinu, er búin að lesa í bókinni minni og núna er ég að skrifa þennan pistil og glugga í blöðin í leiðinni.

Sólardagarnir eru yndislegir & gera það svo auðvelt að vakna.

Mæli með því við alla að venja sig á það að taka daginn snemma & njóta - maður áorkar svo miklu!

Eigið yndislegan dag.

xxx
Lilja

Þessi var tekin rétt fyrir klukkan níu í morgun.
Reykjavík í bakgrunninn - yndisleg!

Friday, June 15, 2012

Camilla Läckberg

Þegar ég var yngri var ég algjör lestrarhestur. Eftir því sem ég varð eldri og byrjaði í menntaskóla og síðar háskóla fékk skemmtilesturinn að sitja á hakanum. Ég byrjaði nokkrum sinnum á einhverjum bókum en komst ekki mikið áfram - hélt ég hefði bara misst hæfileikann að lesa mér til yndis. 

Seinasta sumar leigði ég mér Ísprinsessuna eftir Camillu Läckberg sem er fyrsta bókin í svokallaðri Fjallabakka-seríu. Aldrei á ævi minni hef ég verið jafn spennt og ég gat varla lagt bókina frá mér. Það sumar kláraði ég allar sjö bækurnar (einnig Morð og möndlulykt sem er tæplega 200 bls) og ég vildi ekki trúa því að ég væri búin með þær allar. Það var mjög góð tilbreyting að sitja heima og lesa en ekki hanga í tölvunni!

Ég var í Bónus um daginn þegar ég sá áttundu bókina eftir Camillu, Englasmiðinn. Þaut strax upp á bókasafn og fór á biðlista eftir henni. Bókin er tæpar 500 bls og þar sem hún er ný er hún á 14 daga útláni. Þegar ég fékk hana í hendurnar var ég ekki lengi að klára hana og nú er ég komin á sama stað - búin með allar Camillu-bækurnar sem ég get lesið.

Mæli svo hiklaust með þessum bókum en þær eru í réttri röð:

Ísprinsessan
Predikarinn
Steinsmiðurinn
Óheillakrákan
Ástandsbarnið
Hafmeyjan
Vitavörðurinn
Morð og möndlulykt (stutt saga)
Englasmiðurinn



Mæli svo hiklaust með þessum bókum - öfunda þá sem eiga þær eftir!

xxx
Lilja

Wednesday, June 6, 2012

Ljótur en góður drykkur

Var að ljúka við nýja tegund af próteinsjeik. Fæ mér á hverjum degi en venjulega er það alltaf sá sami (sjá í eldri færslum) - ýmist með jarðarberjum og banana eða jarðarberjum og mangó. Að þessu sinni breytti ég aðeins út af vananum:

Súkkulaðiprótein
Frosin bláber
Frosið spínat
Chia-fræ
Lífrænar kókosflögur
Vatn
Klaki

Mixað & notið ... namm !

Gleymdi að festa drykkinn á filmu en í ljósi þess hversu ógirnilegur hann varð á litinn er það kannski bara ágætt.


Fann þessa mynd og minn drykkur varð reyndar sirka svona á litinn. Lítur bara mun betur út með bláberin og spínatið með.

Betra blogg á leiðinni.

Love love,
Lilja